Segulómun (MRI)

Segulómun ( MRI )

 

Undirbúningur

Almennt er enginn sérstakur undirbúningur.

Þó að rannsóknin sjálf valdi sjaldnast einkennum getur verið krefjandi að liggja eða sitja kyrr í 20-40 mín. Það getur því hjálpað að taka inn verkjatöflu fyrir rannsóknina ef hætta er á að verkir hrjái fólk á meðan rannsókninni stendur.

Í undantekningatilfellum getur þurft að taka kvíðastillandi lyf fyrir rannsóknina ef fólk hefur mikla innilokunarkennd. 

Tímalengd og framkvæmd

Skipt er úr eigin fötum og í stuttermabol og buxur fyrir rannsóknina. Hver rannsókn tekur 20-40 mínútur. Fólk getur yfirleitt legið eða setið í þægilegri stöðu, en mikilvægt er að hafa þann hluta líkamans sem á að rannsaka, alveg kyrran á meðan rannsókninni stendur.

Segulómtæki eru af ýmsum stærðum. Útlimir og axlir eru rannsakaðar í sk. “opnum” tækjum. En þegar rannsóknir eru gerðar af hrygg er legið á bekk sem rennt er inn í segulómtækið. Þar er frekar lítið pláss og nokkuð hávaði í tækinu svo að fólk getur fundið fyrir innilokunarkennd.

Það er þó í raun ekkert að óttast þar sem rannsóknin er skaðlaus og framkvæmdin fyrirsjáanleg og í föstum skorðum.

Frábendingar

Segulsviðið sem rannsóknar aðferðin byggir á hefur áhrif á segulvirka málma. Dæmi um segulvirka hluti sem geta verið frábendingar fyrir rannsókn eru:

  • Gangráður
  • Aðskotahlutir ss. málmflísar.
  • “Aðskotahlutir” í læknisfræðilegum tilgangi ss. æðaklemmur og hjartalokur kalla á sérstaka aðgát.

Síðastliðin ár eru nánast eingöngu notuð efni sem segulsvið hefur ekki áhrif á. Ekki er þó gerð segulómrannsókn nema að tryggt sé að segulóm örugg efni hafi verið notuð.

Skuggaefni er stundum gefið en skert nýrnastarfsemi er frábending.

Skoða þarf vel gátlista fyrir rannsóknina en hann má nálgast hér.

Þungun – brjóstagjöf

Ef um þungun er að ræða er ekki gerð segulómrannsókn enda er sjaldan um bráðarannsóknir að ræða. Rannsóknin hefur ekki áhrif varðandi brjóstagjöf.

Tæknin

Sá líkamshluti sem á að rannsaka er settur í miðju segulsviðs. Segulsviðið hefur áhrif á snúningsöxul vetnisróteinda í líkamanum. Útvarpsbylgjur, sem sendar eru yfir rannsóknarsvæðið hafa einnig áhrif á þennan snúningsöxul. Það er samspil þessarra tveggja þátta, sem veldur því að útvarpsbylgjur kastast til baka frá vefjum líkamans.

Með gífurlega flókinnar tölvuúrvinnslu er sjálf myndin af líkamshlutanum byggð upp. Með þessari aðferð fæst góður aðskilnaður á mismunandi mjúkvefjum líkamans.

Tilgangur

Þessi tækni er notuð þegar þarf mikla aðgreiningu á mismunandi vefjum líkamans. Rannsóknin hentar vel til skoðunar á stoðkerfi líkamans til dæmis liðböndum og sinum, brjóski og liðþófum.

Til mats á bakvandamálum ss. brjósklosi. Einnig heila og kviðarholslíffæra. Læknir sem óskar eftir rannókn metur það, oft í samráði við röntgenlækni, hvort að þessi rannsóknaraðferð henti betur en önnur (ss. tölvusneiðmynd).

Geislun

Ekki er um neina röntgengeislun að ræða.

Skuggaefni

Stundum er gefið skuggaefni í æð sem getur gefið nánari upplýsingar um eðli breytinga. Þrátt fyrir mjög sjaldgæfar aukaverkanir er ekki gefið skuggaefni þegar um skerta nýrnastarfsemi er að ræða.

Niðurstöður

Niðurstöður eru sendar tilvísandi lækni. Ef senda á afrit af niðurstöðum til annarra lækna eða meðferðaraðila er það sjálfsagt.

Reynt er eftir fremsta megni að senda svör sem fyrst og eru þau yfirleitt send innan 3 tíma. Í einstaka tilfellum getur það þó dregist. Það veltur meðal annars á umfangi rannsóknarinnar og hvort þarf að afla upplýsinga um fyrri rannsóknir sem gerðar hafa verið.