Upplýsingar fyrir segulómrannsókn

English versionPolski

Segulómun (MRI) notar sterkt segulsvið til myndatöku og er ekki hættuleg ef öryggisráðstöfunum er fylgt. Þess vegna er mjög mikilvægt að þú lesir þessar leiðbeiningar vandlega og greinir satt og rétt frá öllum atriðum. Vinsamlegast hafðu samband við starfsfólk okkar ef þú hefur einhverjar spurningar eða þarft frekari útskýringar.

 

Hafðu samband SÍMLEIÐIS FYRIR RANNSÓKNARDAG (sími 520-0170) ef eitthvað af eftirtöldu á við um þig:

  • Ígræddur hjartagangráður, bjargráður, vírar eða leiðslur.
  • Æðaklemma á æðagúl (aneurysma) í höfði/heila.
  • Ígrætt heyrnartæki (kuðungsígræðsla).
  • Ígræddur taugaörvi (neurostimulator) t.d. í höfði, hrygg, eða annarsstaðar.
  • Ígrædd lyfjadæla t.d. fyrir insúlín, baclofen, krabbameinslyf eða verkjalyf.
  • Ígræddur hjáveituleggur (shunt) sem stilltur er með segli í höfði eða hrygg.
  • Sykursýkimælir á húð.
  • Þekkt eða möguleg málmflís í auga, byssukúla eða sprengjubrot í líkamanum.
  • Innilokunarkennd eða getur ekki legið alveg kyrr.
  • Barnshafandi eða mögulega barnshafandi.

 

Upplýstu geislafræðing Á STAÐNUM Á RANNSÓKNARDEGI ef eitthvað af eftirtöldu á við um þig:

  • Ígræddur málmur eftir skurðaðgerð t.d. gerviliður, plötur, skrúfur, pinnar eða vírar.
  • Ígræði í æðum t.d. gormur/spóla (coil), stoðnet (stent), holæðarsía (vena cava filter).
  • Einhver önnur ígræði til staðar en nefnd hafa verið að ofan.
  • Húðflúr (tattoo) eða lyfjaplástur á húð.

 

Fjarlægja þarf alla hluti sem innihalda málm t.d. skartgripi, lokka úr andliti og kynfærum, hárspennur, hárskraut, hárkollur, gleraugu, heyrnartæki, gervitennur, gerviútlimi, lyfjadælur og sambærilega hluti. Ef ekki er hægt að fjarlægja einhverja slíka hluti skal upplýsa geislafræðing á staðnum áður en farið er inn í rannsóknarherbergið.

Fara þarf úr öllum eigin fötum nema nærbuxum og sokkum og klæðast sérstökum fatnaði sem afhentur er. Eigin föt og aðrir persónulegir munir eru geymdir í læstum skápi í skiptiklefa. Ekki má taka neina hluti með inn í rannsóknarherbergið nema geislafræðingur gefi sérstaklega leyfi fyrir því. Fyrir rannsóknina er spurt um hæð og þyngd (eða mælt á staðnum), en mikilvægt er fyrir myndatökuna að þessi gildi séu rétt skráð.

Dæmigerð rannsókn tekur 10-40 mínútur og samanstendur af nokkrum myndaröðum sem hver um sig tekur fáar mínútur. Nauðsynlegt er að liggja alveg kyrr á meðan verið er að taka myndir.

Stundum þarf að gefa litarefni (skuggaefni) í æð við rannsóknina. Í slíkum tilvikum þarf að upplýsa geislafræðing um þekkt ofnæmi fyrir gadolinium litarefni (skuggaefni), nýrnasjúkdóm, skerta nýrnastarfsemi eða þungun.