Tölvusneiðmyndir (CT)

Undirbúningur

Oft enginn undirbúningur. Ef rannsókn af kviðarholi þá þarf að drekka ½ líter af vatni fyrir rannókn. Æskilegast er að hafa þvagblöðruna fulla í þessari rannsókn og því ekki ráðlagt að nota salernið eftir drykkjuna.

Tímalengd og framkvæmd

Rannsóknin sjálf tekur um 10 mínútur. Stundum er gefið skuggaefni í æð.

Frábendingar

Engar algerar frábendingar.

Ef grunur er um þungun eru þessar rannsóknir ekki gerðar nema í neyðartilfellum.

Það eru þó vissar frábendingar við gjöf skuggaefnis, sem oft er gefið í rannsókninni.

Þungun – brjóstagjöf

Ef grunur er um þungun eru þessar rannsóknir ekki gerðar nema í neyðartilfellum. Sjálf röntgengeislunin hefur ekki áhrif á brjóstagjöf.

Reynsla af skuggaefnum sem innihalda joð sýna að þau berast í litlum mæli í brjóstamjólk og hægt að er halda brjóstagjöf áfram eins og venjulega eftir rannsókn (sérlyfjaskrá).
Sjá nánar um skuggaefni hér fyrir neðan.

Tilgangur

Tiltölulega einföld og fljótleg rannsóknaraðferð. Hún nýtist á mjög breiðu sviði og nánast öllum líffærum.

Tæknin

Tölvusneiðmynd er útfærsla af röntgentækninni. Notaðir eru röntgengeislar, sem eru í eðli sínu ljósgeislar. Þeir eru þó það orkumiklir að þeir ná að miklu leyti í gegn um fast efni. Vefir líkamans hindra geislana í mis miklu mæli. Loft, t.d. í lungum hindrar geislana nánast ekkert, fita og vöðvar meira, og bein mjög mikið.

Myndlampi og stafrænn móttakari snúast umhverfis sjúklingin og byggir upp þvívíða mynd af því svæði sem á að rannsaka. Þessi gögn er svo hægt að skoða á tölvuskjá frá öllum hliðum.

Geislun

Í umhverfi okkar er alltaf til staðar geislun, bæði frá jörðinni og geimnum/sólinni og er kölluð náttúrleg geislun. Geislavarnir ríkisins hafa umsjón og eftirlit með þessum þáttum þmt. tækjum í læknisfræðilegri myndgreiningu.

Með stöðugri tækniþróun krefjast rannsóknir minni geislun og hefur því geislun við hverja rannsókn minnkað margfalt frá því sem áður var.

Skuggaefni

Skuggaefni er gefið til þess að fá betri aðgreiningu á innri líffærum auk þess sem skuggaefnis “upphleðsla” í vefjum getur gefið upplýsingar um eðli þeirra. Ef þarf að framkvæma æðarannsókn þá er skuggaefni nauðsynlegt. Skuggaefni er gefið í æð.

Ekki er sjaldgæft að frábendingar fyrir skuggaefnisgjöf séu fyrir hendi. Þar ber helst að nefna þekkt ofnæmi gegn skuggaefni, þó er það ekki algjör frábending þar sem hægt er að gefa fyrirbyggjandi lyf fyrir skuggaefnisgjöf. Ekki er mælt með skuggaefnisgjöf ef nýrnabilun er til staðar og ekki er mælt með notkun ákveðinna sykursýkislyfja í tengslum við skuggaefnisgjöf. Geislafræðingurinn sem framkvæmir rannsóknina metur hvort einhverjar frábendingar séu fyrir hendi.

Niðurstöður

Niðurstöður eru sendar tilvísandi lækni. Ef senda á afrit af niðurstöðum til annarra lækna eða meðferðaraðila er það sjálfsagt. Reynt er eftir fremsta megni að senda svör sem fyrst og eru þau yfirleitt send innan 3 tíma. Í einstaka tilfellum getur það þó dregist. Það veltur meðal annars á umfangi rannsóknarinnar og hvort þarf að afla upplýsinga um fyrri rannsóknir sem gerðar hafa verið.